„Það er búið að fullnægja dómi Hæstaréttar," svaraði Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, þegar hann var spurður hvort búið væri að grafa upp líkamsleifar skáksnillingsins Bobby Fischers.
Hæstiréttur úrskurðaði í síðasta mánuði að líkamsleifar Fischers skyldu grafnar upp í þeim tilgangi að fá lífsýni úr honum. Ástæðan er deila um arf Fischers en Marylin Young frá Filippseyjum segist eiga dótturina Jinky Young með Fischer.
Vísir greindi svo frá því fyrir helgi að það ætti að grafa Fischer upp í vikunni.
Fischer var jarðsettur í Laugardælakirkjugarði 2008. Að sögn Ólafs Helga þá voru læknir og sóknarprestur viðstaddir þegar líkamsleifarnar voru grafnar upp.