Innlent

Íslenskir bændur verða olíuframleiðendur

Íslenskir bændur ætla að verða olíubændur og eru byrjaðir að rækta lífrænt eldsneyti. Vél sem gengur fyrir jurtaeldsneyti, framleiddu á Íslandi, var ræst í fyrsta sinn í dag.

Skærgulur akur vekur athygli þeirra sem leiða eiga framhjá Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Þar er verið rækta jurt sem kallast repja en henni var sáð í fyrrasumar í þeim tilgangi að fá úr henni eldsneyti til að nota á farartæki, svokallaðan bio-diesel. Mönnum reiknast til að einn hektari lands gefi 1.500 lítra af eldsneyti á ári.

Svona tilraunaakrar eru nú að blómstra á nokkrum stöðum á landinu, norðan lands og sunnan, og hjá Siglingastofnun í Kópavogi bíða menn spenntir eftir uppskerunni í haust, fræjum repjunnar. Þar hafa menn verið að undirbúa sig með því að búa til lífrænt eldsneyti úr dönskum repjufræjum. Þau voru í dag sett í pressu, og vökvinn kreistur úr þeim, vökvinn síðan eimaður, rétt eins og í olíuhreinsistöð, og út kom lífrænt eldsneyti. Því var svo hellt á vél og hún gangsett. Þetta tilraunaverkefni er liður í samgönguáætlun stjórnvalda með umhverfisvæna orkugjafa.

Jón Bernódusson, verkfræðingur á Siglingastofnun, segir að reiknað hafi verið út að olía repju af einum akri, sem væri 43 x 43 kílómetrar, gæti dugað fyrir allan íslenska fiskiskipastólinn.

Bóndinn á Þorvaldseyri, Ólafur Eggertsson, hugsar sér gott til glóðarinnar. Þegar við spyrjum hvort íslenskir bændur verði olíuframleiðendur segist hann sjá fyrir sér að um leið og mjólkurbíllinn komi að sækja mjólkina takinn hann olíu í leiðinni.

Tengd skjölAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.