Erlent

Eiginmaðurinn baðst afsökunar á klámmyndunum

Jacqui Smith
Jacqui Smith

Eiginmaður Jacqui Smith innanríksiráðherra Bretlands baðst í dag afsökunar á þeim vandræðum sem hann hefur valdið konu sinni. Afsökunarbeiðnina flutti hann á tröppum heimilis þeirra að viðstöddum nokkrum fjölmiðlum. Komið hefur í ljós að ráðuneytið greiddi fyrir tvær klámmyndir sem eiginmaðurinn leigði í gegnum leigurás í sjónvarpinu á heimili þeirra. Hann bað skattgreiðendur ekki afsökunar.

Smith hefur áður sagt að hún sé bæði hrygg og öskureið vegna myndanna tveggja sem voru leigðar þann 1.apríl og 6.apríl á síðasta ári.

Richard Timney eiginmaður Smith bað hana afsökunar á tröppunum fyrir utan heimili þeirra en neitaði að biðja skattgreiðendur afsökunar.

„Mér þykir fyrir þeirri niðurlægingu sem Jacqui hefur orðið fyrir vegna mín. Ég skil hversvegna fólk er reitt yfir þessu," sagði hann meðal annars.

„Augljóslega hefði aldrei átt á láta borga fyrir þessar kvikmyndir, en eins og þið vitið hefur reikningurinn þegar verið greiddur."

Ferill Smith hangir nú á bláþræði og talið er að hún gæti verið færð til í starfi í júní eða september á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×