Innlent

Norðurlöndin sjái um íslenskt loftrýmiseftirlit

Guðjón Helgason skrifar
Thorvald Stoltenber, fyrrverandi utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs og höfundur skýrslunnar, ásamt Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra og Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, á kynningarfundi um skýrsluna í Ósló í Noregi í dag.
Thorvald Stoltenber, fyrrverandi utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs og höfundur skýrslunnar, ásamt Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra og Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, á kynningarfundi um skýrsluna í Ósló í Noregi í dag. MYND/TV2 Noregi
Utanríkisráðherra segir það áhugaverða hugmynd í nýrri norrænni skýrslu að Norðurlöndin taki saman við loftrýmiseftirliti Atlantshafsbandalagsins yfir Íslandi. Eftir sé þó að ræða hana nánar.

Skýrslan, sem var kynnt í dag, er úttekt á því hvernig styrkja megi norrænt samstarf í utanríkis- og öryggismálum. Hún var unnin af Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs, ásamt norrænum sérfræðingum að ósk utanríkisráðherra Norðurlandanna.

Stoltenberg leggur til að Norðurlöndin taki við loftrýmisgæslu yfir Íslandi af Atlantshafsbandalaginu. Frakkar komu í fyrrasumar, Bretar áttu að koma í haust enn ekki varð af því og Danir eiga að koma í mars.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir þetta órætt á Íslandi. Engin ákvörðun hafi verið tekin en hugmyndin sé athyglisverð. Það sé allt annað að hafa vini okkar sem reynst hafi okkur best allra við slíka iðju heldur en einhverja aðra.

Össur segir utanríkisráðherra Finnlands og Svíþjóðar hafa tekið vel í hugmyndina en löndin eru utan NATO. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar hafi þó sagt að skoða yrði kostnaðarhliðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×