Innlent

Stjórnarmyndunarviðræðum haldið áfram

Viðræðunefndir Samfylkingar og Vinstri grænna komu saman til fundar í herbergi forsætisnefndar Alþingis í Alþingishúsinu klukkan hálf tíu og sögðu samningamenn við fréttamann rétt fyrir fundinn að þau ætluðu ekki að standa upp af þessum fundi fyrr en að því verki loknu.

Fari fram sem horfir má vænta þess að forseta Íslands verði gerð grein fyrir stöðunni að fundinum loknum hvenær sem það verður í dag.

Forystumennirnir vildu ekki staðfesta hvort að Gylfi Magnússon og eða Björg Thorarensen taki sæti í stjórninni.

Flokksstjórn Samfylkingarinnar hefur verið boðuð til fundar á NASA klukkan 16 í dag en hún þarf að samþykkja málefnasamning ríkisstjórnarinnar og ráðherraskipan. Flokksstjórn Vinstri grænna veitti forystu flokksins umboð til að ljúka viðræðunum í fyrrakvöld. Þá er búist við að Framsóknarflokkurinn kalli miðstjórn sína saman með skömmum fyrirvara.

Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Lúðvík Bergvinsson sitja fundinn fyrir hönd Samfylkingarinnar og Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir og Ögmundur Jónasson fyrir Vinstri græna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×