Erlent

Margir enn fastir í húsarústum

Margir eru enn fastir undir brennandi húsarústum eftir sprengjuárásina sem gerð var í Pakistan í morgun. Slökkviliðsmenn og björgunarsveitir reyna í örvæntingu að bjarga þeim áður en það er um seinan.

Talið er að yfir eitthundrað manns hafi fallið þegar flug sprengja sprakk í verslunargötu í borginni Peshawar í Pakistan í dag. Henni var að sögn fjarstýrt.

Eldur kviknaði í mörgum nærliggjandi húsum við sprenginguna og þau stóðu í björtu báli. Brakið á sprengistaðnum var svo mikið að björgunarsveitir áttu óhægt um vik að komast á vettvang.

Í dag hefur jöfnum höndum verið unnið að því að slökkva elda og bjarga fólki úr rústunum. Einnig að fjarlægja lík.

Fréttamaður Sky fréttastofunnar í Pakistan segir að talið sé að margir séu grafnir undir húsarústum og að tala látinna eigi eftir að hækka verulega.

Enginn vafi er á að talibanar stóðu á bak við þetta ódæðisverk. Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna er nýkomin í heimsókn til Pakistans til þess að stappa stálinu í stjórnvöld og hvetja þau til þess að herða enn sóknina gegn talibönum.

Her Pakistans hefur undanfarna daga verið að herja á helsta víghreiður talibana sem er í héraðinu Suður-Waziristan skammt frá landamærunum að Afganistan. Hernum hefur að sögn orðið vel ágengt en talibanar hafa verið að hefna sín með fjöldamorðum á óbreyttum borgurum.


Tengdar fréttir

Enn sprengt í Pakistan

Að minnsta kosti sextán létust og tugir eru slasaðir eftir að stór sprengja sprakk á markaði í pakistönsku borginni Peshawar í morgun. Eldur læsti sig í nærliggjandi byggingar eftir að sprengjan sprakk. Ekkert lát virðist vera á sprengjuárásum í landinu sem virðast vera hefndaraðgerðir gegn aðgerðum stjórnarinnar gagnvart Talíbönum. Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna er nú í opinberri heimsókn í höfuðborginni Islamabad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×