Arsenal hefur farið þess á leit við stuðningsmenn sína að þeir gæti varúðar í Rómarborg í kvöld þegar lið þeirra sækir Roma heim í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Prentaður var sérstakur bæklingur sem varar 3,400 stuðningsmenn Arsenal við því að vera á ferðinni þar sem heitustu stuðningsmenn Roma halda til.
Knattspyrnusamband Evrópu hefur varað Rómverja við því að ef til óláta komi í tengslum við Evrópuleiki í borginni gæti það þýtt að úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni sem halda á í borginni í vor verði jafnvel færður annað.
Höfuðborgin hefur verið vettvangur óláta nokkrum sinnum undanfarin ár og skemmst er að minnast ofbeldisverka þegar stuðningsmenn Roma tókust á við stuðningsmenn Manchester United í borginni árið 2007.