Carles Puyol fékk þann heiður að lyfta bikarnum í kvöld en þetta er þriðji bikarinn sem hann lyftir í ár. Breyting á hans háttum enda hafði Barcelona ekki unnið neitt síðustu tvö ár.
„United átti leikinn algjörlega fram að fyrra markinu okkar. Við náðum aftur á móti stjórn á leiknum eftir markið. Menn voru afslappaðri og við gátum því spilað okkar leik," sagði Puyol sem stóð sig vel í stöðu bakvarðar og átti nokkrar góðar rispur upp kantinn í leiknum.
„Við höfum gefið allt til þess að ná þessum árangri. Við höfum unnið allt sem hægt er að vinna í ár. Þetta er svo sannarlega sögulegt tímabil," sagði Puyol.
„Mig langar að þakka stuðningsmönnum félagsins og vonandi njóta þeir stundarinnar. Síðustu ár hafa verið frábær og þeir hafa barist með okkur," sagði Puyol að lokum.