Innlent

Samgöngumiðstöðin mun minni en Leifsstöð

Samgöngumiðstöðin í Vatnsmýri verður um 40% af upphaflegri stærð Leifsstöðvar þótt farþegafjöldi um Reykjavíkurflugvöll sé nú álíka mikill og var um Keflavíkurflugvöll þegar framkvæmdir hófust þar við flugstöðina fyrir 23 árum.

Ákvörðun borgarstjóra og samgönguráðherra í gær markar tímamót í sögu Reykjavíkurflugvallar því í fyrsta sinn frá því hann var lagður á árum síðari heimstyrjaldar verður reist varanleg flugstöð við þennan mikilvægasta innanlandsflugvöll landsins. Tæplega hálf milljón farþega fór um völlinn á síðasta ári en til samanburðar má geta þess að það er álíka mikill farþegafjöldi og fór um Keflavíkurflugvöll árið 1985 þegar framkæmdir hófust við Leifsstöð. Samgöngumiðstöðin verður rúmlega 9 þúsund fermetrar að gólffleti eða langum minni en Leifsstöð, sem upphaflega var 22 þúsund fermetrar. Flugfarþegar verða þó innan við helmingur þeirra sem nýta samgöngumiðstöðina því áætlað er að yfir milljón manns muni fara þarna í gegn árlega, þar á meðal allir þeir sem taka rútu út á land eða til Keflavíkurflugvallar sem og strætisvagnafarþegar. Einnig ferðamenn á leið í skoðunarferðir eða til að leiga sér bílaleigubíl. Þarna verður einnig fjöldi verslana og veitingastaða og bílastæði verða í bílakjallara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×