Innlent

Össur segir vert að skoða þjóðaratkvæði um aðildarviðræður

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir á pistli á heimasíðu sinni að vert sé að kanna vilja þjóðarinnar til aðildarviðræðna að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í pistli sínum hendir Össur á lofti ummæli Björns Bjarnasonar í þættinum Mannamál á Stöð 2 þar sem hann ræddi nauðsyn þess að Íslendingar komi sér upp vegvísi um hvað eigi að gera í Evrópumálum.

„Björn lagði beinlínis til að menn kæmust að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig ætti að breyta stjórnarskránni til að hægt væri að sækja um aðild," segir Össur á síðu sinni. „Sömuleiðis þyrfti í þeim pakka að ákveða hvort - og hvernig - ætti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þá ákvörðun, að sækja um aðildina." Össur segir að ummæli Björns í þættinum teljist til tímamóta, þrátt fyrir að Björn sjálfur hafi sagt síðar að ekkert nýtt hafi verið í ummælum hans: „Ráðherrar af pólitískri hlaupstærð Björns Bjarnasonar leggja varla til að tíma og orku sé eytt í að búa til vegvísi um hvernig eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu - nema þeir telji vaxandi líkur á að það verði gert," segir Össur og bætir við: „Í því felast tímamótin."

„Nú hefur dómsmálaráðherra glætt nýju lífi gamla hugmynd um að hugsanlega væri það góð aðferð til samstöðu að þjóðin tæki sameiginlega ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort ætti að sækja um," segir Össur einnig. „Það er ég til í fyrir mína parta að skoða. Ég tel að það gæti verið góð aðferð til að ná þeirri samstöðu sem Samfylkingin taldi eina af forsendum umsóknar á sínum tíma. Ekki síst í því ljósi er hugmynd Björns um vegvísinn mjög jákvætt framlag," segir ráðherrann að endingu.

Ungir framsóknarmenn hafa einnig kastað þessari hugmynd fram og bent á að tilvalið væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið samfara forsetakosningum í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×