Innlent

Þak fauk af húsi í Vestmannaeyjum

Mikil mildi þykir að enginn skyldi hafa slasast þegar partur af þaki Netagerðar Ísfells í Vestmannaeyjum fauk í dag. Talsvert tjón varð á þakinu sjálfu enda fuku samtals um 130 fermetrar af þakinu burt.

Það var síðdegis í dag að lögreglunni var gert viðvart um það að hluti þaksins á Netagerð Ísfells hefði losnað í norðanáhlaupinu sem nú gengur yfir landið. Björgunarsveitin var send á staðinn og var nokkur hópur manna uppi á þakinu að festa niður það sem hægt var að festa.

Skipti engum togum að um 60 fermetra þakjárnsfleki tókst á loft í einni vindhviðunni, umsnerist og fauk niður af þakinu. Þakflekinn lenti á milli tveggja bíla, kranabíls og björgunarsveitarbíls, sem stóðu undir vegg hússins. Þá fuku fleiri plötur af þakinu og telja sjónarvottar að samtals um 130 fermetrar hafi losnað í hvassviðrinu.

Mjög hvasst hefur verið í Eyjum í eftirmiðdaginn og fór vindstyrkurinn í 32,4 metra á sekúndu á Stórhöfða þegar mest lét frá hádegi til klukkan þrjú í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×