Innlent

Nærri 130 myndaðir við hraðakstur í Hafnarfirði

Tæplega 130 ökumenn eiga von á sektum eftir að þeir voru myndaðir við hraðakstur á þremur stöðum í Hafnarfirði í dag og í gær.

Fram kemur í frétt lögreglunnar að 19 ökumenn hafi verið myndaðir á Arnarhrauni í Hafnarfirði í dag þar sem lögreglan var með klukkustundarvöktun. Það er rúmlega þriðjungur þeirra sem ók um veginn á umræddum tíma.

Þá voru brot 55 manna mynduð á einni klukkustund á Kirkjuvöllum í gær, en það voru 77 prósent ökumanna sem þar fóru um. Enn fremur óku 54 of hratt á Álfaskeiði við klukkustundarmælingu í gær, eða tæplega 60 prósent ökumanna sem fóru þarna um.

Eftirlit lögreglunnar á þessum stöðum er hluti af sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í og við íbúðargötur í umdæminu en unnið er eftir ábendingum frá starfsmönnum svæðisstöðva lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×