Innlent

Lengri hitabylgur og meira regn á Norðurlöndum

MYND/Heiða

Norðurlandabúar eiga eftir að upplifa lengri hitabylgjur og meira regn í framtíðinni samkvæmt nýrri skýrslu sem Norræna ráðherra nefndin hefur látið gera.

Fram kemur í frétt Norðurlandaráðs að til dæmis megi gera ráð fyrir hitatímabilum í nánustu framtíð sem standa munu níu dögum lengur en í dag. Samkvæmt rannsókninni eru merki um að náttúruhamfarir muni nokkrum sinnum verða á Norðurlöndum, meðal annars flóð, ofsaveður, skriðuföll og grjóthrun.

Þá er gert ráð fyrir að yfirborð sjávar hækki verulega og sömuleiðis að sjávarhiti muni hækka. Það mun hafa í för með sér að sumir fiskistofnar stækki en jafnframt geti aðrar tegundir horfið.

Markmiðið með skýrslunni var að greina afleiðingar þess fyrir loftslag á Norðurlöndum að andrúmsloft jarðar á eftir að hlýna um tvær gráður fram til ársins 2100. Skýrslan fjallar um afleiðingar hitabreytinganna, m.a. með tilliti til sjávarhæðar, landbúnaðar og skógarhöggs, fiskveiða, samgangna, ferðamennsku og náttúruhamfara.

 

Loftslagsbreytingarnar munu samkvæmt skýrslunni einnig hafa jákvæðar afleiðingar. Styttri og mildari vetur draga úr orkunotkun og hlýrri sumur hafa góð áhrif á ferðaþjónustu. Aukin úrkoma og hvassviðri auka möguleika á orkuframleiðslu auk þess sem mildara loftslag og lengra vaxtartímabil gagnast landbúnaði og skógarhöggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×