Innlent

Borgin útvegar lóðir undir 600 stúdentaíbúðir

Björg Magnúsdóttir, formaður SHÍ, Ólafur F. Magnússon borgarstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs og Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastjóri FS.
Björg Magnúsdóttir, formaður SHÍ, Ólafur F. Magnússon borgarstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs og Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastjóri FS.

Reykjavíkurborg hefur skuldbundið sig til þess að útvega Félagsstofnun stúdenta lóðir undir 600 námsmannaíbúðir á næstu fjórum árum. Þetta var innsiglað með samningi borgarinnar við Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands sem undirritaður var í dag.

Kveðið er á um það í samningnum að meirihluti íbúðanna skuli vera staðsettur í nágrenni miðborgarinnar. Meðal þeirra svæða sem verið er að skoða er svokallað Hlemmur + svæði, nágrenni Hverfisgötu, nágrenni hafnarsvæðisins og Vatnsmýri. Samstarf og samráð verður við Háskóla Íslands vegna hugsanlegrar uppyggingar í nágrenni við Háskólann segir í tilkynningu borgarinnar.

Þar kemur einnig fram að hluti íbúðanna verði einnig á nýbyggingarsvæðum og verður sérstaklega tekið mið af þörfum stúdenta með fjölskyldur eins og við Sléttuveg og í Úlfarsárdal. Á miðborgarsvæðum verður uppbygging miðuð við að bílastæðakröfur stúdenta séu almennt lægri en gengur og gerist og skuldbinda Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands sig til að framfylgja þeim markmiðum eftir með áherslu á fjölbreytta samgöngukosti.

Þá er ætlunin að blanda saman hefðbundinni íbúðabyggð og uppbyggingu fyrir stúdenta til að stuðla að fjölbreyttri íbúabyggð á uppbyggingarreitum jafnt á þéttingar- sem og nýbyggingarsvæðum.

Stofnaður hefur verið samráðshópur sem skipaður er fulltrúa skipulags- og byggingasviðs, fulltrúa framkvæmda- og eignasviðs, fulltrúum frá Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráði Háskóla Íslands og ber hann ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar og tryggir náið og stöðugt samráð á milli aðila um tækifæri og fyrirkomulag uppbyggingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×