Innlent

Kínverski sendiherrann kom ekki til dyra

Enginn kom til dyra þegar Ungir jafnaðarmenn bönkuðu upp á hjá sendiherra Kína á Íslandi klukkan 11 í dag. Erindi jafnaðarmannanNa ungu var að færa sendiherranum bréf þar sem spurt er út í framferði Kínverja í Tíbet. „Starfsmenn sendiráðsins kusu að koma ekki til dyra en fyrir utan sendiráðið fylgdust nokkrir lögreglumenn með," segir í tilkynningu frá Ungum jafnaðarmönnum.

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður UJ, límdi bréfið á rauða hurð sendiráðsins og sendi einnig annað eintak í pósti, stílað á sendiherrann sjálfan að því er fram kemur í tilkynningunni.

„Það er kaldhæðnislegt að sendiráðið hafi kosið að beita þöggunaraðferðinni og hundsa bréf UJ í ljósi þess að fyrsta spurning ungra jafnaðarmanna til sendiherrans fjallar um það hvers vegna kínversk stjórnvöld reyna að koma í veg fyrir fjölmiðlaumfjöllun um Tíbet, en engum fjölmiðlum er hleypt inn í landið," segir einnig.

Þá segja ungliðarnir að Tíbetar hafi mátt þola gengdarlaust ofbeldi og misrétti frá því að Kínverjar hernámu landið árið 1950. „Nú er lag að beita Kína þrýstingi þegar Ólympíuleikar eru á næsta leiti og efnahagur Kína er háður viðskiptum við vestræn ríki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×