Innlent

Olíuverð og gengissveiflur ólíðandi fyrir ferðaþjónustuna

Aðilar í ferðaþjónustu segja hátt olíuverð og gengissveiflur undanfarna daga nær ólíðandi og má búast við frekari hækkunum á næstunni. Ferðaskrifstofur verja meiri tíma í að fylgjast með gengi krónunnar heldur en bókunum farþega.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að ferðaskrifstofur væru þegar hafnar að hækka verð á ferðum sínum vegna gengisbreytinga undanfarinna daga. Eru dæmi um að fjölskylduferðin hafi hækkað um tæpar 16 þúsund krónur. Ofan á gengissveiflurnar bætist síðan við olíuverð sem nú er í sögulegu hámarki og allt þetta hefur áhrif á aðila í ferðaþjónustu.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair hefur gengi krónunnar ekki teljandi áhrif á afkomu félagsins. Olíuverð hefur hins vegar mun meiri áhrif og er reynt eftir fremsta megni að jafna út sveiflur í olíuverði. Haldist heimsmarkaðsverðið á olíu hátt til lengdar er þó óumflýjanlegt að hækkanirnar skili sér í verðlagið.

Matthías Imsland forstjóri Iceland Express, segir gengissveiflur undanfarinna daga erfiðar fyrir rekstur félagsins og að ástandið sé nánast óviðunandi. Á endanum skili þetta sér út í verðlagið en það virðist þó ekki hafa áhrif á bókanir sem eru fleiri en í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×