Innlent

Ungir jafnaðarmenn senda sendiherra Kína bréf

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður UJ.
Anna Pála Sverrisdóttir, formaður UJ.

Vegna harkalegra aðgerða kínverskra stjórnvalda gegn stuðningsmönnum útlagastjórnar Tíbet færa Ungir jafnaðarmenn sendiherra Kína á Íslandi opið bréf klukkan 11 í dag. Í bréfinu spyr UJ áleitinna spurninga um hernám Kína í Tíbet og hvers vegna fjölmiðlum er haldið frá mótmælum gegn því.

Í tilkynningu frá UJ kemur fram að starfsmenn sendiráðsins hafi í gær sagst vera gríðarlega uppteknir og ekki geta svarað því hvort tekið yrði við bréfinu í dag. Þá hafi framkvæmdastjóri UJ vinsamlegast verið beðinn um að hringja aftur síðar, sem hann gerði ítrekað.

„Í morgun svaraði í sendiráðinu en engu að síður kom fram að sendiráðið væri í páskaleyfi og myndi opna aftur "einhvern tímann í næstu viku". Það yrði því enginn við í dag. Þetta kom þó ekki fram í fjölmörgum samtölum framkvæmdastjóra UJ við starfsmenn sendiráðsins í gær.

Þegar meðlimur UJ hringdi í dag og spurðist fyrir um vegabréfsáritun var honum sagt að sendiráðið tæki ekki á móti neinum en hann gæti þó komið og fengið áritun hringdi hann rétt á undan sér," segir í tilkynningu frá UJ.

Ungir jafnaðarmenn segjast þrátt fyrir þetta munu banka upp á í sendiráðinu klukkan 11 í dag og vonandi muni starfsmenn þess veita bréfinu mótttöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×