Erlent

Nýi ríkisstjórinn í New York í framhjáhaldi

Vandræðagangur Demókrata með ríkisstjóra sína í New York heldur áfram. Sá sem tók við af Eliot Spitzer hafði varla náð að sverja embættiseiðinn þegar fregnir af framhjáhaldi hans spurðust út.

Nýi ríkisstjórinn David Paterson er fyrsti blökkumaðurinn sem gegnir embætti ríkisstjóra í New York. Hann tók við embættinu í gærdag og aðeins tveimur tímum eftir að hann sór embættiseið sinn neyddist hann til að viðurkenna að hann hefði haldið framhjá eiginkonu sinni.

Paterson segir í samtali við dagblaðið Daily News að hann hafi átt í kynferðislegu sambandi við aðra konu á tímabilinu 1999 til 2001. Á þeim tíma hafi hann og kona hans átt við mikla erfiðleika að glíma í hjónabandi sínu. Bæði viðurkenna þau að hafa leitað sér huggunar hjá öðru fólki á þessu tímabili.

Paterson segir að hjónaband þeirra hafi um það bil verið að leysast upp á þessum tíma en þau hafi ákveðið að leita til hjúskaparráðgjafa og það hafi bjargað sambandinu. Hann segir að Michelle kona sína hafi vel vitað hvað var í gangi hjá honum.

Aðspurður þverneitar hann að hafa leitað til vændiskvenna á umræddu tímabili en það var einmitt vændiskona sem felldi Eliot Spitzer úr embættinu.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×