Innlent

Flugvöllur á Hólmsheiði vond hugmynd

Innanlandsflugvöllur á Hólmsheiði er vond og óskynsamleg hugmynd út frá veðurfarssjónarmiðum, segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sem telur að ef völlurinn hefði verið kominn á heiðina núna, hefði hann verið meira og minna lokaður vegna veðurs síðustu þrjá til fjóra daga.

Eini staðurinn sem verið er að skoða af einhverri alvöru sem hugsanlegt flugvallarstæði í staðinn fyrir innanlandsflugvöllinn í Vatnsmýri er Hólmsheiði. Litlar spurnir hafa reyndar farið af þeirri rannsókn sem Veðurstofan hóf fyrir tveimur árum en hún mælir þar vinda, hita og raka. Núverandi borgarstjóri hefur sagt að flugvöllurinn fari ekki upp á Hólmsheiði, borgarfulltrúarnir Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson hafa sagt að það taki 3-5 ár að kanna veðráttuna á heiðinni en samtökin Betri byggð halda því fram að nægar veðurfarsupplýsingar ættu að liggja fyrir næsta vor.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur heldur úti veðurvakt á heimasíðu sinni og í pistli sem hann skrifar í gær segir hann að síðustu daga hafi veðráttan verið slík að ef flugvöllurinn hefði verið kominn á Hólmsheiði hefði hann verið meira og minna lokaður. Hann bendir á að fyrirhugað flugvallarstæði sé í um 130 metra hæð yfir sjávarmáli og sú hæð komi fram af fullum þunga þegar hitinn er rétt ofan við frostmark í Reykjavík.

Hann tekur sem dæmi að þegar skil gengu yfir með slyddu í Reykjavík á fimmtudag og tveggja gráðu hita hafi hitinn verið við frostmark á Hólmsheiði með snjókomu sem leiði af sér verra skyggni og verri bremsuskilyrði. Krapasnjór í fyrrinótt og gær hafi hins vegar ferið fannfergi á Suðurlandsvegi ofan byggðar. Þá hafi rakastigið á Hólmsheiði verið mun hærra síðustu fjóra daga - sem sé ávísun á mjög lág ský sem dragi úr skyggni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×