Innlent

Stórfelldur niðurskurður á Keflavíkurflugvelli

Heimir Már Pétursson skrifar

Lögreglustjóra og sýslumanni á Suðurnesjum sem fer með lög- og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli verður gert að spara 191 milljón króna á þessu ári og tæplega 260 milljónir króna á næsta ári, samkvæmt tillögum dómsmálaráðuneytisins. Ekki verður ráðið í sumarafleysingar hjá lögreglu og tolli.

Nýtt embætti lögreglustjórans og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli varð til hinn 1. janúar í fyrra. Það varð til með sameiningu ýmissra lögreglu-, sýslumanns- og tollembætta vegna breytinganna við brotthvarf hersins. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar verður þessu nýja embætti gert að spara samanlagt 450 milljónir króna á þessu ári og næsta.

Halli á fyrsta rekstrarári embættisins árið 2007 var 49 milljónir króna og á þessu ári er útlit fyrir um 200 milljón króna halla á rekstrinum miðað við gildandi fjárlög.

Samkvæmt tillögum sem nú liggja fyrir í dómsmálaráðuneytinu á ekki að ráða fólk til sumarafleysinga á þessu ári og næsta. Það á að spara 23,2 milljónir bæði árin hjá tollinum, 13,7 milljónir hjá almennu deild lögreglunnar, 18,8 milljónir hjá landamæradeild, 3,7 milljónir hjá rannsóknardeild og 2,1 milljón hjá öryggisdeild. Þetta gerist á sama tíma og farþegum fjölgar um tíu prósent á ári og þar með eykst umfang lögreglu og tollgæslu.

Þá stendur til að segja fastlaunasamningum upp og setja á yfirvinnubann. Þetta á að skila 61,5 milljónum í sparnað á þessu ári og 123 milljónum á næsta ári.

Fækkun stöðugilda í öryggisdeild um tuttugu og þrjú á að spara 18 milljónir á þessu ári og aðrar 18 á næsta ári. Samdráttur í erlendum samskiptum á að spara 3 milljónir á þessu ári og fjórar á því næsta. Þá á að draga saman í kaupum á búnaði upp á 12 milljónir á þessu ári og sex á næsta ári. Skila á tveimur lögreglubílum sem á að spara 4 milljónir sitt hvort árið.

Og í yfirstjórn, á lögfræðisviði, starfsmannasviði, fjármálasviði og skrifstofu á að spara sex milljónir á þessu ári og 36 milljónir króna á árinu 2009.

Samanlagt á embætti lögreglu- og sýslumanns á Keflavíkurflugvelli því að spara 190,9 milljónir króna á þessu ári og rúmar 259 milljónir króna á næsta ári. Til samanburðar eru útgjöld embættisins 1.780 milljónir króna á þessu ári samkvæmt gildandi fjárlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×