Innlent

Vikið úr stjórn vegna viðtals

Forstjóra Orkuveitu Húsavíkur hefur verið vikið úr stjórn orkufyrirtækisins Þeistareykja. Ein tilgreindra orsaka er að hann veitti Stöð 2 viðtal í óþökk yfirmanns.

Á síðasta hluthafafundi í stjórn Þeistareykja ehf var aðeins eitt efni á dagskrá, Hreini Hjartarsyni forstjóra Orkuveitu Húsavíkur var fyrirvaralaust vikið úr stjórn. Hreinn, sem hefur verið helsti talsmaður stóriðju á Húsavík, fékk einnig svokallaða ráðgerða áminningu hjá vinnuveitanda sínum, Norður-Þingi.

Það var fyrir óásættanlega framkomu og mun þar hafa vegið þungt að hann veitti Stöð 2 viðtal á dögunum vegna vinnslu fréttar um álverskapphlaup milli Húsvíkinga og Suðurnesjamanna. Bæjarstjóri Norður-Þings, Bergur Elías Ágústsson, reyndi fyrir viðtalið að koma í veg fyrir að það yrði tekið og sagði fréttamanni að Hreinn hefði ekki leyfi til að tjá sig. En Hreinn ákvað að tjá sig sem framkvæmdastjóri Þeistareykja, en þeirri stöðu gegndi hann einnig á þessum tíma. Þetta þótti yfirmanni hans undanbragð og þess vegna er honum vikið úr stjórn. Einnig spila inn í brottvikninguna ummæli hans áður í fjölmiðlaviðtölum auk þess sem athugasemd hefur verið gerð við reikning á hans vegum.

Hreinn vildi ekki tjá sig um málið í dag að öðru leyti en því að hann staðfestir fyrirvaralausan brottrekstur sinn. Heimildir fréttastofu herma að hann hafi farið fram á að áminningin verði dregin til baka enda hafi hann ekkert brotið af sér. Einn heimildamanna fréttastofu sagði að málið sýndi titringinn og togstreituna í baráttunni um stóriðjur þar sem ein vanhugsuð ummæli gætu sett mál í uppnám.

Landsvirkjun, Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur, Aðaldælahreppur og Þingeyjarsveit eiga Þeistareyki ehf en markmið félagsins er að vinna að orkuöflun fyrir stóriðju á Norðurlandi. Franz Árnason stjórnarformaður Þeistareykja vildi það eitt segja um málið að hann gæti ekki haft skoðun á því þótt einn hluthafi hafi ákveðið að gera breytingu í stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×