Innlent

Ánægður með niðurstöðu í DC++ máli

Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS.
Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS. MYND/365

Rétthafar tónlistar og myndefnis lýsa yfir ánægju sinni með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í dag þar sem fallist var á kröfu ákæruvaldsins og allir einstaklingar sem ákærðir voru, í hinu svo kallaða DC++ máli, sakfelldir fyrir margvísleg brot á höfundarétti.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Smáís. Þar segir einnig:

Refsikrafa var staðfest og eru framgreind brot grundvöllur bótaskyldu vegna ólögmætra nota á höfundaréttavörðu efni. Allir ákærðu voru dæmdir til greiðslu sakarkostnaðar.

Ákærðu voru, eins og áður segir, sakfelldir fyrir að birta og gera eintök af forritum, kvikmyndum og tónlist á netinu þannig að aðrir gætu nálgast það efni án leyfis rétthafa.

Ennfremur var einn ákærða dæmdur fyrir að setja upp og hýsa miðlægan nettengipunkt og hafa með því liðsinnt í verki og hvatt til þess að aðrir ákærðu birtu á netinu í heimildarleysi ólögmæt eintök varin höfundarétti. Þar með er hlutdeildarbrot hvað varðar höfundarétt staðfest.

Einnig var staðfest krafa rétthafa um upptöku tölvubúnaðar sem hinir ákærðu notuðu við skráarskiptin sín á milli.

Dómur þessi verður ennfremur vonandi til þess að almenningur átti sig á því að það er ólögmæt að skiptast á kvikmyndum, tónlist og forritum á netinu án heimildar rétthafa.

Málaferli af þessum toga eru ávallt neyðarbrauð þar sem þau eru bæði tímafrek og dýr fyrir alla sem í hlut eiga þ.e. rétthafa, lögregluyfirvöld, dómskerfið og brotaþola.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×