Innlent

Töfin kostar þrjá milljarða

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Alfreð Þorsteinsson.
Alfreð Þorsteinsson.

Alfreð Þorsteinsson, fyrrverandi formaður framkvæmdanefndar um byggingu háskólasjúkrahúss við Hringbraut, segir að töfin sem orðið hefur á framkvæmdinni kosti að minnsta kosti þrjá milljarða króna. Alfreð var settur af þegar Guðlaugur Þór Þórðarson settist í stól heilbrigðisráðherra.

Inga Jóna Þórðardóttir var sett yfir nefndina og hennar fyrsta verk var að fara yfir alla kosti á nýjan leik. Afrakstur þeirrar vinnu var kynnt í gær. Skoðað var hvar spítalinn ætti að rísa og var komist að sömu niðurstöðu og áður, að spítalinn eigi að rísa við Hringbraut.

„Þetta er engin frétt," segir Alfreð Þorsteinsson í samtali við Vísi. „Það eina sem hefur gerst er að búið er að tefja málið af hálfu ráðherrans." Alfreð segir augljóst að verklegar framkvæmdir sem gert var ráð fyrir að hefja á næsta ári munu ekki hefjast fyrr en í fyrsta lagi árið 2010.

Alfreð segir að sparnaður sem hlýst af því að koma spítalanum undir eitt þak nemi þremur milljörðum á ári og því þýði töf um eitt ár tap sem því nemur. „Það er talið að sparnaðurinn nemi um tíu prósentum af rekstri spítalana á hverju ári en það kostar um 30 milljarða á ári að reka þá. Hvert ár sem tapast í þessu verkefni kostar því þrjá milljarða króna," segir Alfreð Þorsteinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×