Erlent

Litvinenko myrtur með blessun rússneskra yfirvalda

Launmorðið á rússneska njósnaranum fyrrverandi, Alexander Litvinenko var framið með blessun rússneskra yfirvalda samkvæmt heimildum BBC.

Litvinenko var myrtur árið 2006 í London en hann var þekktur sem harður gagnrýnandi Valdimir Putin fyrrum forseta Rússlands . Morðið vakti heimsathygli þar sem hið bráðdrepandi geislavirka efni polonium 210 var notað til verknaðarins.

Breska leyniþjónustan MI5 telur sig hafa sannanir fyrir því að rússnesk stjórnvöld hafi lagt blessun sína yfir morðið áður en það var framið. Í fréttaþættinum Newsnight á BBC í gærkvöldi var haft eftir háttsettum yfirmanni MI5 að mjög sterkar vísbendingar væru um að morðið hafi verið á vegum rússnesku stjórnarinnar.

Andrei Lugovoi fyrrum liðsmaður KGB er talinn sá sem myrti Litvinenko en hann hefur ætíð neitað aðild sinni að málinu. Það kom einnig fram í þættinum að MI5 telur sig hafa komið í veg fyrir að rússneski andófsmaðurinn og auðjöfurinn Boris Berezovsky yrði einnig myrtur í London.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×