Innlent

Íslenskur flugdólgur handtekinn í Skotlandi

Breki Logason skrifar
Maðurinn var um borð í vél Iceland Express.
Maðurinn var um borð í vél Iceland Express.

Karlmaður um þrítugt var handtekinn í Skotlandi í gærkvöldi. Maðurinn var á leið til Íslands frá Barcelona. Ekki var talið öruggt að hafa hann um borð.

„Hann sagði ýmislegt sem leiddi til þess að ekki var talið öruggt að hafa hann um borð," segir Matthías Imsland framkvæmdarstjóri Iceland Express en maðurinn flaug með flugfélaginu frá Barcelona.

Vélin lenti í Skotlandi á leið til landsins þar sem maðurinn er handtekinn af lögreglu þar í landi. Nokkrir lögreglubílar tóku á móti manninum að sögn heimildarmanns Vísis sem var um borð.

Heimildir Vísis herma að maðurinn sé um þrítugt og það hafi ekki verið mikil læti í honum á leiðinni. Grunsemdir vöknuðu hinsvegar strax við innritun um að ekki væri allt með felldu hjá manninum. Hann hafi meðal annars talað um að sprengja væri um borð og fleira í þeim dúr.

Matthías vill ekki staðfesta hversvegna maðurinn var handtekinn en hann á eftir að skoða skýrslu áhafnarinnar. „Ég mun skoða þá skýrslu mjög vel og í kjölfarið taka ákvörðun um hvort málið fari lengra."

Matthías segir svona uppákomur ekki algengar hjá flugfélaginu og ekki sé mikill aukakostnaður sem af manninum hafi hlotist. Farþegar um borð héldu ró sinni en þó urðu skiljanlega örlitlar tafir á fluginu vegna uppákomunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×