Að mati Árna Finnssonar, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands, hefði Umhverfisstofnun átt að hafa til taks viðbragðsáætlun þegar upp komst að ísbjörn væri á landi í Skagafirði. Samkvæmt Árna hefur Umhverfisstofnun þó í einhvern tíma haft í smíðum slíka viðbragðsáætlun en að hún hafi einfaldlega ekki verið tilbúin.
Árni vill samt sem áður ekki kenna neinum um ófarir dagsins. „Ég held að umhverfisráðherra hafi viljað gera þetta öðruvísi. Það var svo sem eðlilegt að kallað væri á skyttur en vandamálið er kannski að þegar menn eru komnir með aflmikla riffla og með bjarndýr fyrir framan sig, að þá er oft erfitt að hvíla á gikknum. Ég vil samt ekki gagnrýna neinn, ég held að það hafi aðallega vantað viðbragðsáætlun."