Innlent

Tjá sig ekki um vöruskipti RÚV

Samkeppniseftirlitið segir vöruskipti hjá RÚV ganga gegn kröfunni um gagnsæi.
Samkeppniseftirlitið segir vöruskipti hjá RÚV ganga gegn kröfunni um gagnsæi. Vísir/GVA
 Í áliti samkeppniseftirlitsins um stöðu og háttsemi RÚV á auglýsingamarkaði ljósvakamiðla, sem birt var á föstudag, kemur fram að RÚV hafi boðið birtingar á auglýsingum í skiptum fyrir vörur. Í ályktuninni er ekki útskýrt nánar hvers konar vöruskipti er um að ræða. Auglýsingastjóri RÚV vill ekki tjá sig um málið.

Í ályktun samkeppniseftirlitsins segir að miklir afslættir RÚV hafi gert samkeppnisstöðu á markaðnum enn verri. Auk þess segir orðrétt:

„Samkeppniseftirlitið hefur einnig upplýsingar um að RÚV hafi boðið vöruskipti í stað peningagreiðslu fyrir auglýsingar.“

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir eftirlitið hafa fengið upplýsingar um vöruskipti RÚV í trúnaði.

„Ef ég tilkynnti hvaða vörur hefði þarna verið um að ræða yrði mjög auðvelt að finna út hvaða fyrirtæki RÚV átti í vöruskiptum við. Að mati þeirra sem í hlut eiga myndi það skaða viðskiptasambönd þeirra. Þetta eru staðfestar upplýsingar, en við virðum trúnaðinn,“ segir Páll og bætir við að hann hafi ekki upplýsingar um hversu mörg tilfelli vöruskipta hafi átt sér stað.

Einar Logi Vignisson, auglýsingastjóri RÚV, segist vísa í tilkynningu Páls Magnússonar útvarpsstjóra frá því fyrir helgi. Í henni er ekkert minnst á vöruskipti.

„Ég hef engu við þetta að bæta. Það skiptir engu hvort þú spyrð mig einnar eða þrjátíu spurninga,“ segir Einar. - kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×