Innlent

Séra Friðriks minnst

Blómsveigur var lagður að leiði séra Friðriks Friðrikssonar í kirkjugarðinum við Suðurgötu í morgun í tilefni þess að í ár eru 140 ár liðin frá fæðingu hans. Blómsveigurinn er frá fimm félögum sem Friðrik stofnaði á ævi sinni, en þau eru KFUM og K, íþróttafélögin Valur og Haukar, íslenska skátahreyfingin og Karlakórinn Fóstbræður. Nú klukkan tíu hefst svo í Grafarvogskirkju dagskrá tileinkuð séra Friðriki. Þar mun Þórarinn Björnsson, guðfræðingur fjalla um elstu varðveittu ræðu séra Friðriks. Hilmar Foss, skjalaþýðandi og dómtúlkur mun minnast dvalar sinnar í Vatnaskógi með séra Friðriki um 1930. Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttastjóri og skáld mun lesa texta dr. Þóris Kr. Þórðarsonar er birtist í Bókinni um séra Friðrik árið 1968.

Guðsþjónustan klukkan ellefu verður sömuleiðis helguð honum. Þrír kórar syngja sálma séra Friðriks í athöfninni: Karlakórinn Fóstbræður undir stjórn Árna Harðarsonar, Valskórinn undir stjórn Báru Grímsdóttur og Kór Grafarvogskirkju undir stjórn Hákonar Leifssonar. Sr. Kristján Búason, fyrrv. dósent, prédikar, en hann þekkti séra Friðrik persónulega og starfaði með honum í Vatnaskógi. Prestar kirkjunnar þjóna fyrir altari.

Að messu lokinni verður boðið upp á léttar veitingar í safnaðarsal kirkjunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×