Innlent

Ráðherra fær einkum vín og bækur

- skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir. Mynd/ GVA

Áfengi og bækur er það sem fyrirtæki, einstaklingar og fulltrúar erlendra ríkja hafa einkum gefið Þórunni Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, eftir að hún tók við embætti. Umhverfisráðuneytið hefur sent fréttastofu Stöðvar 2 lista yfir allar gjafir til Þórunnar eftir að hún settist í ráðherrastól.

Fréttastofa Stöðvar 2 vakti athygli á því um jólin að Landsbankinn hefði fært ráðherrum rauðvínsflösku í jólagjöf og að engar reglur giltu um móttöku gjafa til ráðamanna, en þær munu vera í vinnslu. Í kjölfarið óskaði fréttastofa eftir upplýsingum frá öllum ráðuneytum um gjafir fyrirtækja til ráðherra á árinu 2006. Því var ekki svarað nema sameiginlega og sagt að gjafirnar væru flestar verðlitlar og táknrænar. Fréttastofa hafði síðan spurnir af því að aðeins eitt ráðuneyti - Umhverfisráðuneytið - héldi skrá yfir gjafir, og hefði gert síðan Þórunn Sveinbjarnardóttir varð ráðherra. Var þá óskað eftir þeim gjafalista. Þegar ekkert svar barst var málið kært til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í kjölfarið sendi umhverfisráðuneytið fréttastofu lista yfir allar gjafir sem borist hafa Þórunni á ráðherrastól.

Þar kemur vissulega í ljós að gjafirnar eru flestar verðlitlar og táknrænar. Lunginn eru bækur sem tengjast náttúru landsins, alls sextán bækur. Þá hefur Þórunn fengið fimm flöskur af áfengi frá viðskiptabönkunum þremur og kínverska sendiráðinu, sjö dagatöl, þrjá geisladiska, eftirlíkingu af sólúri frá varnar- og siglingamálaráðherra Portúgals, flíshúfur og trefil frá Gámaþjónustunni, stuttermabol frá Norðlingaskóla, japanskar tekrúsir, hitamæli frá Veðurstofustjóra, kerti frá Sólheimum og hnetur frá bandaríska sendiráðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×