Innlent

Sextíu og tvö prósent Afríkubúa án viðunandi salernisaðstöðu

Frá Rúanda. Myndin tengist fréttinni ekki.
Frá Rúanda. Myndin tengist fréttinni ekki.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segja að sextíu og tvö prósent Afríkubúa hafi ekki aðgang að viðunandi salernisaðstöðu, eða klósetti sem heldur skólpi frá snertingu við umhverfi fólks. Alþjóðleg skýrsla samtakanna verður birt síðar á þessu ári en í tilefni af alþjóðlegum degi vatnsins, 22. mars, hafa verið birtar bráðabirgðatölur um ástand mála í Afríku.

Í tilkynning frá Unicef á Íslandi segir að í ár eigi sérstaklega að vekja athygli á þeirri staðreynd að allt að 2,6 milljarðar manna um allan heim séu ekki með aðgang að klósetti á heimilum sínum og séu þar af leiðandi berskjaldaðir fyrir fjölda sjúkdóma.

„Notkun á almennilegu klósetti og handþvottur - helst með sápu - kemur í veg fyrir að bakteríur, veirur og sníkjudýr spilli vatnsbólum, jarðvegi og fæðu. Slíkt er helsta orsök niðurgangs, sem er næstalgengasta dánarorsök barna í þróunarlöndunum, og veldur öðrum alvarlegum sjúkdómum eins og kóleru, blóðögðuveiki og alvarlegum augnsýkingum (trachoma)," segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×