Erlent

Samþykkja að lengja kjörtímabil forseta Rússlands

MYND/AP

Neðri deild rússneska þingsins samþykkti í dag með yfirgnæfandi meirihluta tillögu Medvedevs forseta um að lengja kjörtímabil forsetans úr fjórum árum í sex.

Jafnframt því að samþykkja lengri setu forseta samþykkti neðri deild þingsins að framlengja eigið kjörtímabil úr fjórum árum í fimm. Ekki er gert ráð fyrir að þetta komi Dmitry Medvedev forseta sjálfum til góða því fastlega er gert ráð fyrir að Vladimir Putin forsætisráðherra verði forseti þegar kjörtímabili Medvedevs lýkur.

Litið er á Medvedev sem staðgengil og jafnvel strengjabrúðu Putins. Putin hefur lýst stuðningi við lengingu kjörtímabils forseta en segir af hæversku að of snemmt sé að velta vöngum yfir því hverjir verði í framboði næsta kjörtímabil.

Frumvarpið um lengingu kjörtímabilsins felur í sér breytingu á stjórnarskránni. Það á eftir að fara í tvær atkvæðagreiðslur til viðbótar á rússneska þinginu áður en það verður að lögum.

Ekki er búist við öðru en að svo verði. Það sem Vladimir Putin styður nær yfirleitt fram að ganga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×