Svo gæti farið að Francesco Totti næði þeim sjaldgæfa áfanga að vera samningsbundinn félagi sínu í aldarfjórðung. Sú verður líklega raunin ef hann skrifar undir nýjan samning sem sagður er liggja á borðinu fyrir hann hjá Roma á Ítalíu.
Totti hefur leikið með aðalliði Roma síðan árið 1993 og er fyrir löngu orðin goðsögn hjá félaginu. Ítalskir fjölmiðlar segja að nýr fimm ára samningur sé á borðinu fyrir Totti sem muni greiða honum sömu laun og hann hefur í dag. Núverandi samningur kappans rennur út á næsta ári.
Totti er meiddur sem stendur en búist er við því að hann verði klár í slaginn í næsta leik. Hann á að baki um 400 leiki fyrir Roma og hefur skorað 160 mörk fyrir félagið.