Innlent

Harðar deilur um stúku á borgarráðsfundi í gær

Upp úr sauð á borgarráðsfundi í gær þegar greinargerð formanns KSÍ um framkvæmdir við Laugardalsvöll var lögð fram. Skiptar skoðair voru um það hver ber ábyrgðina á því að kostnaðun við framkvæmdirnar fóru fram úr áætlun.

Allt útlit er fyrir að kostnaðaraukning Reykjavíkurborgar vegna framkvæmda við Laugardalsvöll verði tæpar 200 milljónir króna. Formaður KSÍ heldur því fram í greinargerð sinni að Degi B. Eggertssyni, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og fyrrverandi nefndarmanni í bygginganefnd, hefði átt að vera fullljóst að framkvæmdirnar færu fram úr áætlun strax í apríl 2006.

Á borgarráðsfundinum í gær hafnaði Dagur því alfarið og sagði greinargerðina stangast í mikilvægum atriðum á við fyrirliggjandi gögn málsins, fundargerðir bygginganefndar og fyrri yfirlýsingar formanns KSÍ.

Upp úr sauð þegar sjálfstæðismenn létu þá færa til bókar að Dagur hefði sem nefndarmaður í byggingarnefnd átt að mótmæla ákvörðunum KSÍ sem leiddu til þess að samningar við verktaka voru hærri en áætlað var og að hann hefði átt að óska eftir frekari fundum í nefndinni. Ábyrgðin væri því í raun hans og R-listans sem þá fór með völd í borginni.

Þetta þótti minnihlutanum í Reykjavík með ólíkindum og sagði það vekja upp spurningar um hvaða hagsmuni meirihlutinn hefði að leiðarljósi í þessu máli.

Borgarráð komst ekki að niðurstöðu á fundinum um hvernig greiðslum til KSÍ skyldi háttað vegna framkvæmdanna. Nokkrar tillögur þar að lútandi voru lagðar fyrir fundinn en þær voru ekki teknar til efnislegrar meðferðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×