Innlent

Mótmælum komið á framfæri við Ísraela vegna aðgerða á Gasa

MYND/Pjetur

Ástandið á Gasasvæðinu hefur aldrei verið verra en nú að mati Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra sem ræddi í morgun við framkvæmdastjóra flóttamannasamtaka Sameinuðu þjóðanna á svæðum Palestínumanna. Hún hyggst koma á framfæri mótmælum við Ísraela.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna, vakti athygli á þeim aðstæðum sem ríkja á Gasasvæðinu, en þar hafa Ísraelar lokað fyrir rafmagn þannig að það hefur áhrif á sjúkrahús og fleiri mikilvægar stofnanir.

Vísaði Ögmundur í bréf Sveins Rúnars Haukssonar, formanns félagsins Ísland - Palestína, til ríkisstjórnarinnar þar sem ástandinu á Gasa er lýst. Benti hann á að eldsneytis- og rafmagnsleysi hefði í för með sér að starfsemi spítala lamaðist og sömuleiðis skolp- og vatnsveita sem væru knúnar rafmagni. Drepsóttir gætu breiðst út og stefna Ísraelsstjórnar væri að breyta þessu stærsta fangelsi heims sem Gasa væri í útrýmingarbúðir. Spurði hann ráðherra hvernig hann hygðist bregðast við ástandinu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði ástand mála á Gasa skelfilegt og hefði sennilega aldrei verið verra. Hún hefði í morgun hringt í framkvæmdasstjóra flóttamannasamtaka SÞ á svæðinu. Hún hefði sagt að á þeim sjö árum sem hún hefði starfað á svæðinu hefði ástandið aldrei verið verra.

Ingibjörg Sólrún sagðist líta svo á að Ísraelar og Palestínumenn hefðu rétt á að gæta öryggis síns en ekki væri hægt að sætta sig við aðgerðir Ísraela nú. Hér væri á ferðinni hóprefsing sem væri ólögleg samkvæmt alþjóðlegum lögum. Íslensk yfirvöld hlytu að koma á framfæri mótmælum við þessu. Sagðist Ingibjörg Sólrún myndu reyna að hafa samband við utanríkisráðherra Ísraels til þess að koma á framfæri mótmælum.

Utanríkisráðherra sagði eldflaugaárásir frá Gasasvæðinu ófyrirgefanlegar en 250 slíkar hefðu verið gerðar á undanförnum mánuði. Það réttlætti hins vegar ekki þá hóprefsingu sem Ísraelar hefðu gripið til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×