Fótbolti

Þjálfari KR ósáttur við tapið gegn Keflavík

Teitur Þórðarson
Teitur Þórðarson Mynd/Vilhelm

Teitur Þórðarson, þjálfari KR, var að vonum ósáttur við tap sinna manna gegn Keflavík fyrr í kvöld. Liðin áttust við á heimavelli KR í lokaleik fyrstu umferðar Landbankadeildar karla. Leiknum lauk með sigri Keflavíkur, 1-2.

„ Þetta voru gífurleg vonbrigði. Við áttum leikinn. Við fengum nokkrar skyndisóknir á okkur sem gerðu okkur órólega en svo náðum við þessu aftur í okkar hendur og það er ótrúlega svekkjandi að fá ekkert útúr þessu. Það var klaufaskapur í okkur að gera ekki út um leikinn í fyrri hálfleiknum", sagði Teitur meðal annars í viðtali við Sýn að leik loknum.

Annað hljóð var í Jónasi Guðna Sævarssyni fyrirliða Keflavíkurmanna sem mættu firnasterkir til leiks: „Við erum með hörkulið sem á að mínu mati að vera í toppbaráttunni en við náðum ekki að spila boltanum nógu vel á milli okkar í fyrri hálfleik en það lagaðist í þeim síðari", sagði Guðni eftir leikinn.

Keflvíkingar mæta íslandsmeisturunum í FH í næstu umferð Landsbankadeildarinnar þann 20. maí. Sama dag mætir KR Breiðabliki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×