Fótbolti

Forseti Venesúela eyddi 62 milljörðum í Copa America

Copa America hefst annað kvöld og verður sjónvarpsstöðin Sýn með flesta leiki í beinni útsendingu
Copa America hefst annað kvöld og verður sjónvarpsstöðin Sýn með flesta leiki í beinni útsendingu NordicPhotos/GettyImages

Keppnin um Suður-Ameríkubikarinn í knattspyrnu, Copa America, hefst með látum í Venesúela annað kvöld með tveimur leikjum. Sjónvarpsstöðin Sýn mun gera mótinu góð skil og verður með tvær beinar útsendingar strax fyrsta kvöldið þegar Úrúgvæ mætir Perú og heimamenn í Venesúela taka á móti Bólivíu.

Handhafar titilsins, Brasilíumenn, eru ásamt Argentínumönnum taldir sigurstranglegastir í keppninni. Brassar sigruðu Argentínumenn í vítakeppni þegar keppnin var síðast haldin í Perú fyrir þremur árum og hafa Argentínumenn reyndar ekki sigrað í keppninni í 14 ár.

Þetta er í 42. sinn sem Copa America er haldin og á keppnin rætur að rekja allt til ársins 1916. Keppnin nú stendur yfir frá 26. júní til 15. júlí. Copa America er jafnan haldin á tveggja ára fresti nema þegar keppnin rekst á við HM og er oft á tíðum góður gluggi fyrir knattspyrnumenn frá álfunni til að sýna sig fyrir útsendurum félagsliða frá Evrópu.

Brasilíumenn eru í B-riðli mótsins ásamt Mexíkóum, Chile og Ekvador og hefur Dunca þjálfari kosið að koma til leiks með nokkuð breytt lið frá því þegar Brassar féllu óvænt úr leik gegn Frökkum á HM síðasta sumar. Ronaldinho og Kaka hafa báðir farið þess á leit að fá frí frá keppninni og bera við þreytu frá löngu tímabili með félagsliðum sínum. Þeirra í stað fengu menn eins og Elano frá Shaktar Donetsk og Wagner Love frá CSKA Moskvu tækifæri og þá verður áhugavert að fylgjast með miðjumönnunum Anderson og Joshua, bakverðinum Kleber og varnarmanninum Alex Silva.

Alfio Basile, þjálfari Argentínumanna, hefur ákveðið að mæta til leiks með lið sem er blanda af reyndum og yngri leikmönnum. Framlína liðsins verður ekki árennileg þar sem menn á borð við Carlos Tevez, Lionel Messi, Hernan Crespo og Juan Roman Riquelme verða í broddi fylkingar.

Aldrei fyrr hefur öðrum eins fjárhæðum verið varið í að gera Copa America jafn glæsilegt mót, en Hugo Chavez, forseti Venesúela, hefur mokað rúmum 60 milljörðum í keppnina til að sjá til þess að allt verði eins og best verður á kosið í mótshaldinu.

Þessar tölur eru ótrúlegar í ljósi þess að engin þjóð hefur varið meira en 25 milljónum dollara í keppnina á síðasta rúma áratug. Þrír nýir leikvangar hafa verið reistir fyrir keppnina og sex endurbyggðir rækilega. Þá hefur allt samgöngukerfi verið tekið rækilega í gegn í þeim níu borgum þar sem spilað verður í keppninni.

Sjónvarpsstöðin Sýn verður með fjölda beinna útsendinga frá keppninni eins og áður sagði, en greint verður frá því reglulega hér á Vísi hvaða leikir eru í beinni hverju sinni. Fyrsti stórleikurinn í keppninni er á dagskrá strax á miðvikudagskvöldið þar sem Brasilíumenn mæta Mexíkó eftir miðnætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×