Erlent

Sögulegt samkomulag á Norður-Írlandi

Ian Paisley leiðtogi Sambandsflokksins og Gerry Adams leiðtogi Sinn Fein hafa komist að samkomulagi um myndun heimastjórnar á Norður-Írlandi. Stjórnin tekur til starfa 8. maí. Þetta er sögulegt samkomulag en þar til í dag höfðu leiðtogar Sambandsflokksins og Sinn Fein aldrei fundað.

Þeir sögðu á blaðamannafundi eftir undirritun samkomulagsins að það væri gert með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi og að friður væri kominn til að vera á Norður-Írlandi. Paisley hafði áður lagt blátt bann við viðræðum við Sinn Fein.

Seinna í dag mun héraðsþing Norður-Írlands koma saman í Stormont-kastala í Belfast og velja ráðherra í heimastjórnina. Það þótti til marks um að enn er grunnt á því góða á milli leiðtoganna að þeir tókust ekki í hendur að blaðamannafundinum loknum.

Hreyfingar þeirra bárust á banaspjótum áratugum saman og alls fórust minnst 3.600 manns í 30 ára átökum milli mótmælenda og kaþólikka á Norður-Írlandi. Ekki tókst að mynda heimastjórn á Norður-Írlandi eftir kosningarnar fyrir fjórum árum og kom þingið sem þá var kjörið fyrst saman í fyrravor. Reglur segja til um að þátttöku fjögurra stærstu flokkanna þurfi til að mynda megi heimastjórn.

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands tekur samstarfi Sambandsflokksins og Sinn Fein á Norður-Írlandi fagnandi. „Þetta er mikilvægur dagur fyrir norður-írsku þjóðina. Í vissum skilningi er dagurinn í dag það sem við höfum verið að búa okkur undir síðustu tíu árin", sagði Blair. „Norður-Írar hafa sagst vilja frið og valdreifingu og betri samvinnu og stjórnmálamenn eru nú að verða við þeirri beiðni", sagði hann ennfremur.

Smelltu hér til að sjá yfirlýsingar Paisley og Adams á Veftíví Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×