Erlent

Segir lífi hermanna sóað

„Við höfum sóað miklu af dýrmætasta fjársjóði okkar, sem er líf Bandaríkjamanna," sagði repúblikaninn John McCain í sjónvarpsþætti Davids Letterman á þriðjudagskvöldið.

McCain hefur aldrei hvikað frá stuðningi sínum við stríðið í Írak, en hefur á hinn bóginn harðlega gagnrýnt það hvernig George W. Bush forseti hefur staðið að stríðinu.

Það vakti mikla athygli þegar hann sagði í sjónvarpsþættinum að lífi bandarískra hermanna hefði verið „sóað" undanfarin fjögur ár í Írak. Demókratar segja nú eðlilegt að hann biðjist afsökunar á þessu orðalagi, þar sem Barack Obama, sem sækist eftir að verða forsetaefni demókrata, baðst afsökunar á sambærilegum ummælum nýverið.

McCain notaði annars tækifærið í sjónvarpsþættinum og tilkynnti að hann ætlaði að sækjast eftir að vera forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins árið 2008. Hann sagðist ætla að lýsa því formlega yfir í apríl næstkomandi, í beinu framhaldi af ferð sinni til Íraks.

McCain sóttist einnig eftir því að verða forsetaefni flokksins árið 2000, en þá bar George W. Bush sigur úr býtum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×