Erlent

Lögregluþjónn lést í fótboltaóeirðum

Ítalska knattspyrnusambandið hefur hótað því að fresta öllum knattspyrnuleikjum í landinu um óákveðinn tíma eftir að lögreglumaður týndi lífi og yfir 70 manns slösuðust í óeirðum á leik á föstudagskvöld.

Óeirðirnar brutust út fyrir utan leikvanginn á leik Sikileyjarliðanna Catania og Palermo.

Leikurinn var stöðvaður í síðari hálfleik þegar táragas sem lögreglan beitti til að hafa hemil á óeirðaseggjum barst inn á völlinn. Á sjónvarpsupptökum sáust áhorfendur berjast við að ná andanum og hella vatni yfir andlit sér. Lögreglumaðurinn lést eftir að sprengju var kastað inn í bíl hans.

Ofbeldið hélt áfram að leiknum loknum og alls slasaðist 71. Þar af var 61 lögreglumaður, en enginn þeirra slasaðist alvarlega. Fimmtán manns hafa verið handteknir vegna ólátanna, átta fullorðnir og sjö ungmenni.

Öllum leikjum sem fram áttu að fara um helgina í efstu tveimur deildum í landinu var aflýst, sem og landsleik Ítala og Rúmena sem átti að fara fram á miðvikudag.

Æðsta nefnd íþróttamála á Ítalíu mun koma saman og funda um málið á morgun og einnig stendur til að taka það upp á ítalska þinginu. Mínútuþögn verður á undan öllum íþróttaviðburðum á Ítalíu um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×