Erlent

Ný ríkisstjórn líklega mynduð á morgun

Romano Prodi
Romano Prodi Getty Images

Forseti Ítalíu ráðfærði sig í dag við leiðtoga stjórnmálaflokka í landinu til að reyna að leysa pólitískan hnút sem upp er kominn eftir að Romano Prodi forsætisráðherra sagði af sér á miðvikudaginn eftir níu mánaða valdatíð.

Prodi sagði af sér eftir að hafa verið niðurlægður í kosningum í þinginu um utanríkisstefnu landsins en þá voru meðal annars áætlanir hans um að ítalskir hermenn yrðu áfram í Afganistan gerðar að engu.

Snemma í dag kom svo í ljós að Prodi ætlar að reyna til þrautar að berja í brestina í ríkisstjórnarsamstarfi vinstri- og miðjuflokka. Drög að því samkomulagi fela meðal annars í sér að hermenn verði áfram í Afganistan, að Ítalir standi þar við skuldbindingar sínar gagnvart NATO.

Uppi eru kenningar um að Prodi og samstarfsmenn hans í ríkisstjórn séu tilbúnir að ganga ansi langt til þess eins að tryggja að Silvio Berlusconi verði ekki aftur forsætisráðherra.

Giorgio Napolitano forseti landsins hefur í dag gengið á milli manna og reynt hvað hann getur til að leysa hnútinn sem málið hefur verið í síðan á miðvikudag. Búist er við því að tilkynnt verði um nýja ríkisstjórn Romano Prodi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×