Erlent

Piltur sem hvarf árið 2002 fundinn

Laganna verðir færa mannræningjann, Michael Devlin, í varðhald í gær.
Laganna verðir færa mannræningjann, Michael Devlin, í varðhald í gær.

Tveir unglingspiltar fundust heilir á húfi í íbúð rúmlega fertugs manns í St. Louis í Bandaríkjunum í gær. Annars piltanna hafði verið saknað síðan árið 2002 og hins frá því síðasta mánudag.

Maðurinn, Michael Devlin, er framkvæmdastjóri pitsustaðar og starfar í hlutastarfi á útfararstofu. Hann hefur verið kærður fyrir að ræna hinum þrettán ára Ben Ownby á mánudag og hinum, nú fimmtán ára, Shawn Hornbeck, í október árið 2002. Sextíu kílómetrar voru milli staðanna þaðan sem piltarnir hurfu.

„Við færum ykkur annars vegar góðar fréttir og hins vegar ótrúlegar fréttir," sagði lögreglustjórinn sem stýrði rannsókninni á blaðamannafundi í gær. Lögreglan fékk heimild til að leita í öllum húsum í nágrenni staðar þar sem sást hafði til hvíts sendiferðabíls, en hann þótti svara til lýsingar á bíl sem sást þar sem Ownby hvarf á mánudag.

Báðir piltarnir voru sendir á sjúkrahús til athugunar en reyndust við góða heilsu og báru sig vel. Ekki er vitað hvað manninum gekk til en sjónarvottar segja Hornbeck ekki hafa verið hræddan við Devlin eða reynt að flýja. Þeir hafi reist tjald saman úti í garði og Devlin hafi leyft Hornbeck að eiga farsíma.

Síðan Hornbeck hvarf hafa foreldrar hans helgað líf sitt málum týndra barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×