Fótbolti

Gunnar: Gaf merki um hornspyrnu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dick Advocaat, þjálfari Zenit, var ekki ánægður með vítaspyrnudóm Kristins.
Dick Advocaat, þjálfari Zenit, var ekki ánægður með vítaspyrnudóm Kristins. Nordic Photos / AFP

Gunnar Gylfason, FIFA aðstoðardómari, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Kristins Jakobssonar.

Gunnar var aðstoðardómari Kristins í leik Everton og Zenit St. Pétursborg í UEFA-bikarkeppninni fyrr í mánuðinum. Kristinn dæmdi vítaspyrnu í leiknum og rak leikmann rússneska liðsins af velli í kjölfarið fyrir að handleika knöttinn innan teigs.

Sjónvarpsendursýningar sýndu hins vegar að umræddur leikmaður handlék knöttinn ekki. Var því hvorki vítaspyrnan né rauða spjaldið réttur dómur.

Kristinn tjáði sig um atvikið í samtali við Fréttablaðið þann 7. desember.

„Þetta var stór ákvörðun sem ég tók í samráði við aðstoðardómara, sem var Gunnar Gylfason í þessu tilviki, og við stóðum náttúrlega og féllum með henni. Fyrst ég mat þetta þannig að leikmaður Zenit hefði handleikið knöttinn og um leið komið í veg fyrir mark, þá lá það í augum uppi samkvæmt reglum að dæma víti og gefa viðkomandi leikmanni rautt spjald.

Ef ég hefði hins vegar séð atvikið frá öðru sjónarhorni, eins og ég sá á myndbandsupptöku eftir leikinn, þá hefði ég vitanlega hvorki dæmt víti né gefið leikmanninum rautt spjald," sagði Kristinn.

Kristinn tjáði sig svo á nýjan leik um atvikið í viðtali við Fréttablaðið í gær.

„Heildarniðurstaðan er mjög góð en það var samt rætt samstarf okkar Gunnars [Gylfasonar aðstoðardómara]. Gunnari fannst þetta vera víti og hendi og ég varð auðvitað að elta hann enda erum við í sama liði. Við stöndum og föllum með því," sagði Kristinn.

Gunnar Gylfason sendi svo frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í dag:

„Samkvæmt reglum UEFA er dómurum óheimilt að tjá sig við fjölmiðla um þá leiki sem þeir dæma á vegum þeirra. Ég tel mig hins vegar knúinn til þess að leiðrétta misskilning sem hefur orðið vegna ummæla Kristins Jakobssonar í fjölmiðlum eftir leik Everton og Zenit Petersburg 5. desember s.l. Á 30. mínútu leiksins tók Kristinn þá ákvörðun að dæma vítaspyrnu á Zenit þegar undirritaður gaf merki um hornspyrnu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×