Erlent

Hafna kínverskum friðargæsluliðum í Darfur

Hermaður frá Afríkubandalaginu horfir yfir þorp í Darfur sem lagt hefur verið í rúst.
Hermaður frá Afríkubandalaginu horfir yfir þorp í Darfur sem lagt hefur verið í rúst. MYND/AFP

Uppreisnarmenn í Darfur í Súdan hafa krafist þess að friðargæsluliðar frá Kína yfirgefi héraðið aðeins klukkutímum eftir komu 135 kínverskra verkfræðinga. Þeir komu til Darfur í dag til að undirbúa komu 26 þúsund friðargæsluliða á vegum Sameinuðu þjóðanna og Afríkubandalagsins.

Uppreisnarmenn Réttlætis-og jöfnuðarhreyfingarinnar JEM saka Kínverja um að vera samseka um ástandið í Darfur. Í síðasta mánuði réðist hópurinn á olíusvæði undir stjórn Kínverja og rændu nokkrum verkamönnum.

Olía fyrir blóð

JEM krefst þess að Kína hætti að styðja súdönsk stjórnvöld. Þeir segja að olía sem seld er til Kína sé notuð til að fjármagna aðgerðir stjórnvalda í Darfur.

Khalil Ibrahim leiðtogi JEM sagði Reuters fréttastofunni að kínversku verkfræðingunum yrði ekki hleypt inn á svæði á þeirra valdi.

„Við erum á móti komu þeirra af því að Kína hefur ekki áhuga á mannréttindum. Kína hefur bara áhuga á auðlindum Súdan."

Verkfræðingunum er ætlað að byggja vegi og brýr, auk þess að grafa brunna fyrir komu friðargæsluliðanna í janúar.

Uppreisnarmennirnir hafa sagt að þeir muni ekki mótmæla friðargæsluliðum frá öðrum löndum en Kína. Omar Al-Bashir forseti Súdan sagði í gær að einungis yrði tekið á móti herliðum frá Kína og Pakistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×