Erlent

Kasparov handtekinn í Moskvu

Íslandsvinurinn, skákmeistarinn og einn helsti leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, Garry Kasparov var handtekinn í mótmælaaðgerðum í Moskvu í dag. Fleiri andstæðingar Vladimir Putins forseta sem tóku þátt í mótmælunum voru einnig handteknir. Mótmælin voru skipulögð af flokki heimsmeistarans, Annað Rússland.

Lögreglan greip til aðgerða þegar mótmælendur reyndu að ganga að kosninganefnd sem hafði hafnað öðrum rússneskum frambjóðendum í þingkosningunum sem fara fram 2. desember næstkomandi. Búist er við að stuðningsmenn forsetans vinni kosningarnar.

Sextíu manns voru handteknir auk Kasparovs. Vitni segja lögreglumenn hafa barið Kasparov. Hann var ákærður fyrir mótþróa við handtöku og að hafa skipulagt ólögleg mótmæli.

Í flokki Kasparovs kemur saman breið fylking hefðbundinna stjórnmálamanna, vinstrisinna og þjóðernissinna sem allir eru andvígir núverandi stjórn.

Um þrjú þúsund mótmælendur tóku þátt í göngunni í dag. Þeir héldu á spjöldum og borðum og kröfðust þess að almenningur losaði sig við Putin í kosningunum. Leiðtogar flokksins hafa gagnrýnt þingkosningarnar og segja að fólki sé ekki gefinn valkostur.

Leiðtogi hins hefðbundna frjálslynda flokks í landinu tók þátt í mótmælunum. Fréttaritari BBC í Moskvu segir það til merkis um vaxandi fylgi við Annað Rússland.

Stjórnarháttum forsetans var mótmælt. Hann sagður misnotað völd sín á kostnað framfara í landinu. Hann banni andstæðingum á borð við Annað Rússland að bjóða fram í þingkosningunum um næstu helgi en hafi um leið tryggt sér örugg þingsæti til að halda áhrifum vegna þess að hann megi ekki bjóða sig fram til forseta á næsta ári. Stjórnarskráin bannar það að nokkur gegni embættinu þrjú kjörtímabil í röð. Ofan á þetta banni svo Pútín alþjóðlegt kosningaeftirlit um næstu helgi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×