Erlent

Varað við bjartsýni

Guðjón Helgason skrifar
Saud al-Faisal prins, utanríkisráðherra Sádí Arabíu, og Amr Moussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins, á fundinum í höfuðstöðvum bandalagsins í Kaíró í Egyptalandi í dag.
Saud al-Faisal prins, utanríkisráðherra Sádí Arabíu, og Amr Moussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins, á fundinum í höfuðstöðvum bandalagsins í Kaíró í Egyptalandi í dag. MYND/AP

Ísraelar og Palestínumenn hafa ekki náð samkomulagi um dagskrá friðarráðstefnu í Maryland í Bandaríkjunum í næstu viku. Ríki Arababandalagsins boðuðu flest komu sína í dag og allt er nú reynt til að tryggja að Sýrlendingar mæti.

Friðarráðstefnan Ísraela og Palestínumanna verður haldin í Annapoli í Maryland-ríki í Bandaríkjunum og hefst á þriðjudaginn. Fulltrúar Arabaríkja komu saman til fundar í höfuðstöðvum Arababandalagsins í Kaíró í Egyptalandi í dag til að ræða ráðstefnuna og hvort rétt væri að mæta. Egyptar og Jórdanar höfðu þegar boðað komu sína auk nokkurra annarra Arabaríkja. Eftir fundinn var tilkynnt um samstöðu Arabaríkja í málinu og að Sádí Arabar ætluðu að senda fulltrúa.

Sýrlendingar hafa sagt að þeir taki ekki þátt ef landtaka Ísrela á Gólan-hæðum 1967 verði ekki til umræðu. Því var neitað þar til síðdegis í dag þegar Bandaríkjamenn tilkynntu að hún yrði á dagskrá. Stjórnvöld í Damaskus hafa þó ekki gefið upp hvort þau sendi fulltrúa.

Varað er við bjartsýni fyrir ráðstefnuna. Oft hafi hyllt undir friðarsamkomulag sem síðan hafi orðið að engu. Ráðstefna sem þessi var síðast haldin í Madrídarborg á Spáni í október 1991. Niðurstaðan var engin því Ísraelar neituðu að ræða beint við Frelsissamtök Palestínumanna, PLO. Óslóarsamkomulagið boðaði breytta tíma og var innsiglað var með handabandi á lóð Hvíta hússins í Washington tæpum tveimur árum síðar. Það varð að engu vegna morða og óaldar. Ísrelum og Palestínumönnum gengur illa að semja dagskrá fyrir fundinn í Annapolis og það er ekki talið boði gott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×