Erlent

Danir greiða atkvæði um upptöku evrunnar

Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur hefur ákveðið að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu um hvort Danir vilji taka upp evruna sem gjaldmiðil eða ekki.

Danir hafa áður kosið um upptöku evrunnar sem gjaldmiðils landsins en það var árið 2000 og var tillagan þá felld. Anders Fogh Rasmussen segir að nú sé rétti tíminn til að taka ákvörðun í málinu á ný og hann telur að þrjóska Dana við að skipta yfir í evrur hafi frekað hindrað en hjálpað efnahagslifi landsins.

Danmörk ásamt Bretlandi og Svíþjóð voru þau lönd í Evrópusambandinu sem héldu eigin gjaldmiðli er evran var tekin upp árið 2002.

Ákvörðun forsætisráðherrans hefur komið verulega á óvart þar sem evran var ekki kosningamál í nýafstöðnum þingkosningum í landinu. Hinsvegar sýnir ný skoðanakönnun að rúmlega 51% Dana er nú hlynntur evrunni.

Knud Erik Jörgensen prófessor í evrópumálefnum við háskólann í Árósum segir að Danir hafi kynnst evrunni undanfarin 5 ár og líkar vel við þennan gjaldmiðil. Hann telur að upptaka evrunnar verði aðalega táknræn athöfn þar sem Danmörk hefur sömu peningamálastefnu og Evrópusambandið og fylgir öllum vaxtaákvörðunum seðlabanka Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×