Erlent

Hillary krefst aðgerða vegna hópnauðgunarmálsins

Hillary Clinton og fleiri frambjóðendur demókrataflokksins í Bandaríkjunum hafa fordæmt dóminn yfir 19 ára fórnarlambi hópnauðgunnar í Saudi-Arabíu. Hillary krefst þess að Bush Bandaríkjaforseti beiti áhrifum sínum til að fá dóminum aflétt.

Mikil umræða hefur verið um þetta mál í fjölmiðlum vestanhafs undanfarna daga. Stúlkan var dæmd til að þola 200 svipuhögg og sex mánaða fangelsisvist fyrir það eitt að hafa verið á ferð í bíl með manni sem ekki var skyldur henni. Bíllinn var stöðvaður af hópi sjö manna sem nauðguðu bæði stúlkunni og manninum sem var jafnaldri og samstúdent hennar.

Hillary Clinton fordæmir málið á heimasíðu sinni og krefst aðgerða af hendi Bandaríkjastjórnar. Talsmaður utanríkisráðuneytisins segir hinsvegar að þó menn þar á bæ séu forviða á dóminum séu um innanríkismál að ræða í Saudi-Arabíu og því ekki rétt að blanda sér í málið.

Stúlkan var upphaflega dæmd til að þola 90 svipuhögg en hún áfrýjaði þeim dómi og fór með málið í fjölmiðla. Áfrýjunardómstóllinn þyngdi refsingu hennar með þeim orðum að stúlkan hefði reynt að hafa áhirf á réttarkerfi landsins. Jafnframt var lögfræðingi hennar vísað frá málinu og hann sviptur málafærsluréttindum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×