Erlent

Risastór marglyttutorfa eyðilagði laxeldisstöð

Innrás risastórrar torfu af marglyttum hefur þurrkað út eina laxeldi Norður-Írlands en marglytturnar drápu yfir 100.000 laxa í sjóeldiskvíum undan strönd landsins.

Milljarðar af marglyttum flutu inn í sjókvíarnar sem staðsettar voru um mílu undan strönd Glenarm flóa í Írlandshafi og drápu allt sem þar var að finna. Starfsmenn kvíanna reyndu að bjarga laxinum en tókst ekki að komast nógu fljótt í gegnum þykka breiðuna af marglyttunum sem mældist 16 km á breidd og yfir 10 metra djúp.

Marglytturnar eru af tegundinni Mauve Stingers og hafa ekki sést áður á þessum slóðum. Forstjóri eldisins segir að hann hafi aldrei séð nokkuð þessu líkt á 30 ára ferli sínum í laxeldi. Tjónið nemur hátt á annað hundrað milljónir króna en írsk stjórnvöld segja að þau muni aðstoða við að koma eldisstöðinni á laggirnar á ný. Talið er að það verk muni taka um tvö ár.

Eldisstöð þessi er mjög þekkt á alþjóðavísu. Meðal þeirra sem neytt hafa laxsins úr eldinu var Elísabet bretlandsdrottning en laxinn var á matseðlinum á áttræðisafmæli drottningarinnar.

Rannsóknir víða um heim hafa sýnt að eftir því sem fiskistofnar minnka fjölgar marglyttum þar sem hrogn marglyttna eru fæða fyrir minni fisktegundir. Er nú svo komið að undan ströndum Vestur-Afríku er orðið ómögulegt að stunda fiskeldi sökum ágangs marglyttna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×