Erlent

Íraskur fréttamaður AP talinn njósnari

Bilal Hussein.
Bilal Hussein. MYND/AP

Bandaríski herinn vill að gefin verði út ákæra á hendur íröskum ljósmyndara AP fréttastofunnar í Írak. Maðurinn var tekinn höndum árið 2006 vegna gruns um aðstoð við íraska uppreisnarmenn.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að viðbótarsönnunargögn hafi komið í ljós sem sannað hafi að Bilal Hussein væri hryðjuverkamaður. Hann sinnti njósnum í fjölmiðlum og hafi laumað sér inn í Associated Press.

Ákvörðun um hvort málið fer fyrir dóm verður tekin af íröskum dómurum.

AP segir að rannsókn innan fyrirtækisins hafi ekki leitt í ljós nein sönnunargögn um að hann hafi verið neitt annað en íraskur blaðamaður sem vann á stríðssvæði. Lögmenn AP segja að þeim hafi verið neitað um aðgang að Hussein og sönnunargögnunum gegn honum. Þannig sé þeim ómögulegt að byggja upp vörn fyrir hans hönd.

Hussein var hluti af ljósmyndaliði AP sem vann Pulitzer verðlaun árið 2005. AP segir hann hafa verið tekinn höndum í apríl 2006 eftir að hafa skotið skjólshúsi yfir nokkra ókunnuga menn í kjölfar sprengingar nálægt heimili hans í Falluja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×