Erlent

Fjöldaverkföll í Frakklandi í dag

Mikill fjöldi opinberra starfsmanna í Frakklandi mun fara í verkfall í dag og má búast við truflunum víða í landinu af þessum sökum.

Lestastarfsmenn eru nú á annari viku verkfalls síns og litlar líkur á að það leysist í bráð. Nú hafa aðrir hópar opinberra starfsmanna ákveðið að efna til eins dags verkfalls í dag. Þar á meðal eru kennarar, flugumferðarstjórar, starfsmenn sjúkrahúsa og póstburðarmenn. Einnig er reiknað með aðgerðum af hálfu háskólastúdenta.

Þessi verkföll og aðgerðir eru til að mótmæla áætlunum Nicolas Sarkozy forseta um efnahagslegar umbætur í landinu. Lestastarfsmenn eru í verkfalli til að mótmæla áformum um að draga úr eftirlaunarétttindum þeirra en þeir sem fara í verkfall í dag eru að mótmæla áformum um launalækkanir og niðurskurð á nýráðningum.

Meðal þeirra afleiðinga sem verkfallið hefur eru að flugumferð mun liggja að mestu niðri í landinu, skólar verða lokaðir og stórlega mun draga úr þjónustu á spítölum landsins. Og reikna má með því að starfsemi háskóla landsins verði meir og minna lömuð í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×